Kæri bakhjarl,
Að hafa séð heiminn með sömu augum frá fæðingu getur í sumum tilfellum þýtt að erfitt er að greina sjónskerðingu. Þetta þekkir Dagbjört Andrésdóttir vel en hún var 26 ára þegar hún var greind með heilatengda sjónskerðingu, sem kemur ekki til vegna augngalla heldur skemmda í sjónstöðvum heilans. Dagbjört sagði sögu sína í Mannlega þættinum á Rás 1 á dögunum þar sem hún talaði meðal annars um mikilvægan jafningjastuðning hjá Blindrafélaginu.
Falin fötlun
Í viðtalinu segir Dagbjört meðal annars frá því að heilatengd sjónskerðing sé á margan hátt falin fötlun og birtingar slíkrar sjónskerðingar geti verið margvíslegar. Hún sé auk þess algengari en margir halda.
„Fólk sem fæðist með þetta hefur engan samanburð. Hjá mér er ég með svokallaða vöntun á neðra sjónsviði. Þá sé ég ekki neitt fyrir neðan mig,“ útskýrir Dagbjört sem oft hefur meitt sig eða dottið við að ganga niður stiga vegna þess að hún sá ekki aðskotahlut sem þar var.
Þetta hefur eðlilega haft mikil áhrif á líf Dagbjartar og hún segir að sem barn hafi hún ekki passað í hópinn í skólanum og verið svolítið ein í heiminum. Hún var greind með einhverfu áður en móðir hennar komst að því fyrir tilviljun að þetta var ástæðan, sem svo var staðfest af augnlækni.
Fræðsla nauðsynleg
Dagbjört segir fólk ekki nægilega meðvitað um heilatengda sjónskerðingu og vinnur nú að fræðsluefni hjá Blindrafélaginu. Hún segir ýmsan stuðning að finna hjá Blindrafélaginu fyrir allar mismunandi sjónskerðingar. Hún kom þangað fyrst, nýbúin að fá greiningu, og hugsaði með sér að hún væri tæplega með nógu mikla sjónskerðingu til að eiga heima þar, en raunin var önnur. „Það er bara fullt af jafningjastuðningi þarna sem er mjög ómetanlegt að skuli vera til staðar.“
Fræðsla, stuðningur og réttindabarátta eru verkefni Blindrafélagsins. Með þínum stuðningi getum við barist fyrir því að blindir og sjónskertir einstaklingar geti lifað sjálfstæðu, innihaldsríku og ábyrgu lífi, og að þeim sé tryggður jafn réttur og jöfn tækifæri til ábyrgrar, virkrar og viðurkenndrar þátttöku í öllum þáttum samfélagsins. Kærar þakkir fyrir að standa með okkur.
Með bestu kveðju,
starfsfólk Blindrafélagsins.