Kæri styrktarfélagi,

Í dag er alþjóðlegur dagur til heiðurs leiðsöguhundum. Þessir ferfættu vinir hafa breytt lífi margra blindra og sjónskertra til hins betra því auk augljósrar aðstoðar eru þeir góður og nærandi félagsskapur og geta hjálpað sínu fólki á marga vegu.
Leiðsöguhundar eru gríðarlega öflugt hjálpartæki fyrir blint og alvarlega sjónskert fólk og veita notendum bæði frelsi, öryggi og ánægju eins og sést vel á ummælum skjólstæðinga Blindrafélagsins sem njóta aðstoðar leiðsöguhunds:
 
„Strax í aðlöguninni með hundinn fann ég hversu miklu öruggari ég var. Svo þegar við fórum í fyrsta göngutúrinn saman fann ég hversu miklu afslappaðri ég var. Ég var að njóta þess að ganga úti sem er nokkuð sem ég hafði ekki gert lengi.“


„Hundurinn hjálpar mér mjög mikið félagslega. Nú fer ég á staði og mannamót sem ég hef ekki treyst mér til að fara á áður.“


„Ég er gríðarlega þakklátur fyrir að hafa fengið þennan ljósgeisla inn í líf mitt og ég held að fæstir geri sér grein fyrir því hversu mikil lífsgæðaaukning er fólgin í því að hafa svona traustan vin og stuðningshund sem er manni samferða í gegnum lífið.“


„Ég velti því oft fyrir mér hvað ég hafi eiginlega verið að gera allan daginn áður en ég fékk þessa dásamlegu skepnu í líf mitt. Fyrri utan það augljósa sem hundurinn gerir fyrir mig stuðlar hann líka að jafnvægi. Við þurfum öll að borða, hreyfa okkur, sofa og eiga innihaldsrík samskipti ef við eigum að virka nokkuð eðlilega.“


„Það er hrein ánægja að vera á ferðinni með blessað dýrið. Hlutir sem áður voru leiðindakvaðir, eins og að fara í búðina eða labba á milli staða, eru orðnir hrein dásemd.“

Gaur verðlaunaður fyrir vel unnin störf

Í yfir áratug hafa verðlaunin Þjónustuhundur ársins verið veitt. Þar koma ýmsir starfsvettvangar hunda til greina s.s. lögregluhundar, leitarhundar og leiðsöguhundar. Nú síðast var það leiðsöguhundurinn Gaur sem hlaut þessa eftirsóttu nafnbót. Samferðamaður Gaurs er Þorkell J. Steindal.
„Ég ályktaði að það hlyti að vera vegna þess að ég sé svo erfiður blindur maður og því mikið afrek af Gaurs hálfu að passa upp á mig. Ég var fullvissaður af forsvarsmönnum Hundaræktarfélags Íslands, sem veitir verðlaunin, að svo væri ekki. Ég gleðst yfir því að fá staðfestingu á því sem ég tel mig nú vita, að Gaur sé svo sannarlega besti kallinn, allavega árið 2022.“ segir Þorkell.


Þinn stuðningur við Blindrafélagið gerir okkur meðal annars kleift að tryggja félagsfólki okkar aðgang að þjálfuðum leiðsöguhundum. Þannig aukum við lífsgæði blindra og sjónskertra svo þeir geti lifað sjálfstæðu, innihaldsríku og ábyrgu lífi, og að þeim sé tryggður jafn réttur og jöfn tækifæri til ábyrgrar, virkrar og viðurkenndrar þátttöku í öllum þáttum samfélagsins. Takk fyrir að taka þátt í baráttunni og standa með okkur.

Með bestu kveðju,
starfsfólk Blindrafélagsins.