Kæri Bakhjarl,
Engu okkar dylst að við lifum á tímum stafræns veruleika og í raun er það með ólíkindum hve mikið hlutirnir hafa breyst á síðasta aldarfjórðungi í þeim efnum. Stafrænar lausnir hafa gjörbylt upplifun blindra og sjónskertra og opnað á möguleika sem þessi hópur var áður útilokaður frá.
Í nýjasta tölublaði Víðsjár, riti Blindrafélagsins sem kemur út í dag, er tilkoma gervigreindar rýnd frá sjónarhóli blindra og sjónskertra. Þar er meðal annars bent á hvernig gervigreind getur komið í staðinn fyrir að þurfa að biðja fjölskyldumeðlimi eða aðra um aðstoð við hversdagslega hluti, eins og að finna rétta stillingu á þvottavélinni eða fá upplýsingar um matvæli af umbúðarlýsingunum. Hvort tveggja er stórgott og á ríkan þátt í að efla sjálfstæði blindra og sjónskertra við hversdagslegar athafnir. Þar er því þó líka velt upp hvort framtíðarþróunin verði á þá leið að gervigreindin geti til dæmis leiðbeint blindum einstaklingum út af heimilinu, í tiltekna skóbúð og fundið í hillunni nákvæmlega það sem viðkomandi leitar að, allt í rauntíma. Manneskjan hefur þó ennþá þörf fyrir samtal og nærveru, svo enn höfum við mannfólkið eitthvað til málanna að leggja. Sem betur fer.
Að venju er Viðsjá stútfull af áhugaverðum og skemmtilegum greinum þar sem varpað er ljósi á líf og starf blindra og sjónskertra og starfsemi Blindrafélagsins. Við fáum meðal annars fróðlega umfjöllun um íshokkí sem hefur verið lagað að hæfileikum blindra með þrefalt stærri pökk sem hljómar eins og kúabjalla og fræðumst um hvernig svokallaðar sjónlýsingar veita blindum og sjónskertum aðgang að fjölbreyttri menningu.
Í einlægu viðtali segir Jón Helgi Gíslason frá sjónmissinum sem ágerðist hægt og rólega.
„Ég hugsa um það sem ég hef að þakka fyrir, ekki um það sem mig skortir. Þakklætið er mín mantra. Ef ég held henni og nokkurn veginn hreinu borði, þá er lífið gott, eins gott og það getur verið.“
Við hvetjum ykkur eindregið til að líta í Víðsjá og lesa um áhugavert fólk og skemmtileg umfjöllunarefni. Þetta málgagn Blindrafélagsins er okkur afar mikilvægt til að miðla þekkingu og fróðleik en þetta er eitt af fjölmörgum verkefnum sem við getum sinnt fyrir tilstilli stuðnings frá mánaðarlegum styrktaraðilum eins og þér.
Kærar þakkir fyrir að leggja þitt af mörkum og standa með réttindum og styðja við velferð blindra og sjónskertra.
Með bestu
kveðju,
starfsfólk Blindrafélagsins.