Kæri styrktarfélagi,

Í nýjasta tölublaði Víðsjár kennir ýmissa grasa eins og ávallt. Þar er meðal annars fjallað um sumarbúðir blindra og sjónskertra, sjónlýsingar á knattspyrnuleikjum og síðast en ekki síst foreldrahlutverkið.

Síðastliðið vor fór fram umræðufundur á vegum Hljóðbrots, hlaðvarps Blindrafélagsins, þar sem umræðuefnið var foreldrahlutverkið og hvort, og þá hvernig, blinda eða sjónskerðing hafi áhrif á það. Þáttastjórnendur, þeir Hlynur Þór Agnarsson og Eyþór Kamban Þrastarson, sátu í pallborði ásamt Söndru Dögg Guðmundsdóttur og Kaisu Hynninen.

Tilfinningin við að eiga von á barni var samkvæmt þeim sem tóku þátt í umræðunum almennt tengd gleði, tilhlökkun og spennu. Enginn kannaðist við að hafa upplifað kvíða eða aðrar neikvæðar tilfinningar tengdu nýju hlutverki sem rekja mætti til blindu eða sjónskerðingar. Slíkt kemur okkur þó ekki á óvart, þar sem fólk með sjónskerðingu hefur þurft að tækla öll lífsins verkefni og áskoranir með skertri sjón og fundið aðferðir og leiðir sem henta því. Aðspurð um hvað þeim þætti erfiðast við foreldrahlutverkið var það eitt atriði sem velflestir foreldrar eiga sameiginlegt, hvort sem þeir eru fullsjáandi eða ekki – þreytan.

 

Tengdamamma þurfti að lesa á óléttuprófið

Þungun uppgötvast yfirleitt þegar verðandi móðir tekur þungunarpróf en í einu tilfellinu kom fram að tengdamóðirin var fengin til að lesa niðurstöðu prófsins þar sem báðir verðandi foreldrar eru blindir. Í þættinum var einnig rætt um hversdagslega hluti eins og baðtíma, bleyjuskipti og háttatíma. Að veita ást, athygli og umhyggju flæktist ekki fyrir neinum viðmælenda en nokkrir nefndu erfiðleika þegar kom að því að mata börnin en einnig þegar þau voru veik og notast þurfti við hitamæli, sem aðeins sýnir hitastigið en les það ekki. Einnig kom háttatíminn til tals og hvernig blindir gætu lesið fyrir börnin sín fyrir svefninn. Þátttakendur voru sammála um að þetta væri oft nokkrum erfiðleikum háð þar sem sjónskert fólk þarf góð birtuskilyrði, stærra letur og skörp litaskil á milli bakgrunns og texta. Blindir notast við punktaletur svo þarna fundu sumir að þeir stóðu frammi fyrir því að þurfa að finna aðrar lausnir. Margir brugðu einfaldlega á það ráð að segja börnum sínum sögur í staðinn og jafnvel að fá börnin til að taka þátt í að semja söguna. 

Að missa sjónar af barninu sínu

Börn geta tekið upp á öllu mögulegu (og ómögulegu). Ein móðir sagðist hafa áhyggjur af því að vera ein úti með barnið og það tæki upp á því að hlaupa í burtu, nokkuð sem börn eiga vissulega til. Ein möguleg lausn við því sem var nefnd var að hafa barnið í beisli í slíkum aðstæðum og jafnvel með GPS-úr ef allt færi á versta veg og það týndist. Heimalærdómur barnanna var einnig til umræðu þar sem foreldrar fundu vel fyrir aukavinnunni sem skapaðist við að gera heimanám og samskipti þeirra við skóla og kennara aðgengileg fyrir sjónskerta. Eins var nefnt í því samhengi að sumir foreldrar höfðu áhyggjur af því hvernig þau gætu aðstoðað börn sín með heimanám í framtíðinni.

Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi, eru hagsmunasamtök með það markmið að blindir og sjónskertir einstaklingar geti lifað sjálfstæðu, innihaldsríku og ábyrgu lífi. Við erum bakhjörlum eins og þér afar þakklát því þinn stuðningur gerir okkur kleift að skipuleggja starfið til lengri tíma, bjóða fjölbreytta þjónustu og sinna nýjum verkefnum í takt við nýja tíma, í þágu blindra og sjónskertra á Íslandi.

Með kveðju,
starfsfólk Blindrafélagsins.