Úr Morgunblaðinu í dag fyrirlestur í Hátíðarsal Háskóla Íslands á morgun 23. janúar Ný tækni kynnt á fyrirlestri í Háskóla Íslands Blindir fá sýn innan gæsalappa Rúnar Unnþórsson, frumkvöðull og prófessor í iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands, flytur ásamt Árna Kristjánssyni, prófessor í sálfræði, fyrirlestur í röðinni Nýsköpun – hagnýtum hugvitið í Hátíðasal Háskóla Íslands á morgun, 23. janúar, kl. 12. Verkefnið hlaut fyrstu verðlaun í flokknum Tækni fyrir samfélag í úrslitum Nýsköpunarverðlauna framkvæmdastjórnar ESB sem afhent voru í Vín á dögunum. „Nýsköpun snýst um að mæta þörfum og síauknum kröfum um umhverfisvænni lausnir og aukið öryggi,“ segir Rúnar um erindi þeirra félaga, sem er í boði Jóns Atla Bendiktssonar, rektors Háskóla Íslands. Rúnar mun segja frá verkefninu Sound of Vision, það er þróun hátæknibúnaðar sem hjálpar blindum og sjónskertum að skynja umhverfi sitt. Myndavélum er þá komið fyrir á höfði notandans og upplýsingum úr þeim svo miðlað með tæknibúnaði til notandans, það er hvort einhverjar hindranir séu á veginum framundan. Notandinn er með heyrnartól og er þá í raun sagt hvort hlutir eru til hægri eða vinstri, hurð eða stigi framundan eða hola í jörðinni. Blindir eiga með þessu að geta staðsett sig án þess að nota hvíta stafinn. „Þeir munu bara sjá, innan gæsalappa, það sem er framundan,“ segir Árni Kristjánsson og bætir við að mannsheilinn hafi afar mikla hæfni til að endurskipuleggja sig. „Í þessu verkefni nýtum við þessa miklu hæfni heilans. Ef við missum skilningarvit, til dæmis sjón, þá geta önnur skynfæri tekið við.“