Helga Ólafsdóttir nam bókasafnsfræði við Háskóla Íslands og fjallaði lokaritgerð hennar um bókaþjónustu við blinda á norðurlöndunum og Íslandi. Síðar fór hún til framhaldsnáms til Bandaríkjanna að kynna sér bókaþjónustu fyrir blint og sjónskert fólk. Að námi loknu varð Helga einn af fyrstu starfsmönnum Borgarbókasafns Reykjavíkur sem sinntu dreifingu hljóðbóka og varð fyrsti vísir að Hljóðbókasafninu. Þar starfaði hún ötullega að dreifingu hljóðbóka til lánþega við þröngar og erfiðar starfsaðstæður og fábrotinn tækjakost. Helga Ólafsdóttir varð fyrst til að orða þá hugmynd að það yrði að stofna blindrabókasafn og átti ásamt fleiri frumkvöðlum drjúgan þátt í að það varð að raunveruleika. Helga var skipuð í undirbúningsnefnd að stofnun Blindrabókasafns og vann af eljusemi að því markmiði. Hún varð fyrsti forstöðumaður safnsins og gegndi því starfi þar til hún lét af störfum fyrir aldurssakir. Alla tíð var Helga vakin og sofin yfir velferð safnsins og fylgdist vel með tækninýjungum og leiddi þróun safnkostsins frá segulböndum yfir í hljóðsnældur og fyrstu skrefin inn í stafrænu öldina en Blindrabókasafn Íslands var í fararbroddi norrænna hljóðbókasafna við að tileinka sér Daisy tæknina við hljóðbókagerð. Helga Ólafsdóttir hlýtur Gulllampa Blindrafélagsins fyrir ómetanlegt frumkvæði að stofnun hljóðbókasafns á Íslandi og dugnað við að tryggja vöxt þess og velgengni.