Í nútíma stafrænu samfélagi er aðgengi að rafrænum upplýsingum, þjónustu og hverskonar afþreyingu, lykilatriði þegar kemur að möguleikum manna til að vera virkir í samfélaginu. Sérstaklega á þetta við um samfélagsþátttöku blindra og sjónskertra einstaklinga. Máltækniverkfæri eins og talgervlar og talgreinar sem vinna á íslenskri tungu skipta þar sköpum. Ekki bara í þeim tilgangi að auðvelda aðgengi fyrir blinda og sjónskerta, heldur ekki síður til að verja íslenska tungu í veruleika þar sem samskipti manns og tölvu fara í síauknu mæli fram í töluðu máli. Eiríkur Rögnvaldsson hefur um árabil verið í fararbroddi þeirra sem hafa vakið athygli á stöðu íslenskunnar á tölvuöld og barist fyrir því að íslenskan verði gjaldgeng í stafrænum heimi og þannig átt frumkvæði að því að forða íslenskri tungu frá stafrænum dauða. Hann lagði einnig Blindrafélaginu mikið lið við smíði Íslensku talgervlana Karls og Dóru. Eiríkur Rögnvaldsson prófessor emeritus í íslenskri málfræði hlýtur Gulllampa Blindrafélagsins fyrir óbilandi baráttudug fyrir því að íslenskan verði gjaldgeng í stafrænum heimi og stuðlað þannig að betra aðgengi blindra og sjónskertra að tækifærum hinnar stafrænu snjalltækjaaldar með viðeigandi máltæknilausnum.